Ferill 566. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 802  —  566. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavanda.


Flm.: Diljá Mist Einarsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Tómas A. Tómasson, Hildur Sverrisdóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Sigmar Guðmundsson, Hilda Jana Gísladóttir, Oddný G. Harðardóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Helga Þórðardóttir, Jakob Frímann Magnússon, Bergþór Ólason.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sérfræðinga til að greina þá hópa sem ekki fá viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavanda. Jafnframt verði starfshópnum falið að koma með tillögur til úrbóta. Tillögurnar skulu liggja fyrir í síðasta lagi 1. ágúst 2022.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er heilbrigðisráðherra falið að láta greina þá hópa sem ekki fá viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavanda. Nauðsynlegt er að hópar vímuefnasjúklinga verði skilgreindir svo hægt sé að gera tillögur að úrræðum sem henta hverjum hópi. Kjörið væri að vinna þetta samhliða heildarúttekt heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma sem hófst í maí 2021.
    Fíknisjúkdómar eru lífshættulegir sjúkdómar og ljóst að bið eftir heilbrigðisþjónustu getur verið dauðadómur. Meðan sjúklingarnir bíða eftir að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu er gífurlegt álag á aðstandendur þeirra og fjölskyldur með tilheyrandi afleiðingum og kostnaði fyrir samfélagið.
    Fíknisjúkdómar eru bráðasta hættan sem steðjar að ungu fólki á Íslandi. Árið 2020 létust tuttugu einstaklingar undir 40 ára aldri af völdum of stórs skammts af fíkniefnum. Hinn 26. mars síðastliðinn birtist í Fréttablaðinu átakanlegt viðtal við ungan mann og móður hans. Maðurinn hefur glímt við fíknisjúkdóm hálfa ævina og er einn þeirra fjölmörgu sem bíða eftir því að komast í innlögn á Vog. Meðan hann bíður nýtur hann stuðnings frá fjölskyldu sinni og kaupir fráhvarfslyf á svörtum markaði, en það eru lyf sem eru iðulega gefin í inniliggjandi meðferð. Mæðginin kalla eftir fleiri og breyttum meðferðarúrræðum og segja að biðlistarnir séu ekkert annað en dauðalistar.
    Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ, reka Sjúkrahúsið Vog, eftirmeðferð á Vík og ráðgjafaþjónustu á göngudeild. Stór hluti rekstrar SÁÁ er greiddur með söfnunarfé. Landspítalinn rekur vímuefnadeild og Krýsuvíkursamtökin og Samhjálp reka sömuleiðis meðferðarúrræði, svo dæmi séu tekin. Takmarkanir sem ríkið beitti til að vernda líf og heilsu fólks gagnvart heimsfaraldri höfðu mikil og takmarkandi áhrif á meðferðarúrræði þannig að biðlistavandinn jókst. Í dag bíða um 750 sjúklingar eftir því að komast í meðferð á Sjúkrahúsinu Vogi. Biðlistar í önnur meðferðarúrræði eru langir og neyðin mikil.
    Þegar kemur að fólki með fjölþættan vanda/tvígreiningu er pottur víða brotinn og einna verst stendur hópur fólks með fíknisjúkdóma. Þessir sjúklingar lenda oft á milli í heilbrigðiskerfinu; festast til að mynda inni á sjúkrahúsum vegna skorts á framhaldsúrræðum og er neitað um geðheilbrigðisþjónustu vegna vímuefnavanda.
    Ljóst er að fólki sem glímir við fíknisjúkdóma er ekki tryggð nauðsynleg heilbrigðisþjónusta þegar hundruð sjúklinga bíða eftir viðhlítandi úrræðum. Það er í mikilli mótsögn við þá mikilvægu viðhorfsbreytingu sem hefur orðið í samfélaginu í þá átt að fíknisjúkdómar eigi að vera meðhöndlaðir sem slíkir innan heilbrigðiskerfisins. Það er mat flutningsmanna að það ætti að vera algjört forgangsmál hjá stjórnvöldum að efla og auka skilvirkar forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði, enda eru forvarnir og meðhöndlun fíknisjúkdóma besta leiðin til að draga úr vímuefnavandanum.